Viðskipti innlent

VGK-Hönnun styrkir HR

Forsvarsmenn VGK-Hönnunar og HR undirrita samninginn.
Forsvarsmenn VGK-Hönnunar og HR undirrita samninginn.

Verkfræðistofan VGK-Hönnun og Háskólinn í Reykjavík hafa gert með sér samkomulag til þriggja ára sem felur í sér fjárhagslegan stuðning að upphæð 22,5 milljónir króna til tækni- og verkfræðideildar HR.

„Fjármununum verður einkum varið til að efla samstarf skólans við MIT, einn helsta vísinda- og tækniháskóla Bandaríkjanna, og aukinna rannsókna og nýsköpunar á sviði orkurannsókna," segir í tilkynningu. „Á móti fær VGK-Hönnun aðgang að fyrirtækjasamstarfi Háskólans í Reykjavík og MIT, sem opnar fyrir möguleika starfsfólks VGK-Hönnunar að sækja sér dýrmæta þekkingu í fræðasamfélag MIT, bæði á sviði verkfræði sem og annarra fræða."

„Markmið okkar með þessum fjárstuðningi við Háskólann í Reykjavík er fyrst og fremst að efla starfsemi tækni- og verkfræðideildarinnar enn frekar með það fyrir augum að í framtíðinni skili þessi stuðningur sér í öflugum og vel menntuðum verk- og tæknifræðingum," segir Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri VGK-Hönnunar. „Sérstaklega erum við að horfa til orkumálanna. Eftirspurn eftir sérfræðingum á því sviði fer sífellt vaxandi og því er mikilvægt að hlúa að og styrkja háskólana sem mennta verðandi starfsfólk inn á þetta svið."

„Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík er enn í mikilli uppbyggingu með nám í verkfræði, tæknifræði, iðnfræði og frumgreinum," segir Gunnar Guðni Tómasson deildarforseti hjá HR. „Á næstu misserum er stefnt að stórauknu meistaranámi við deildina auk vaxandi áherslu á rannsóknir. Þessi mikilvægi stuðningur gerir okkur kleift að efla samstarf okkar við MIT og fá aðila þaðan í lið með okkur við frekari mótun og uppbyggingu deildarinnar, auk þess að styðja við almenna starfsemi, jafnt kennslu sem rannsóknir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×