Viðskipti innlent

Glitnir hagnast um 25 milljarða

MYND/GVA

Hagnaður Glitnis á fyrstu níu mánuðum ársins nam 25, 2 milljörðum króna samkvæmt uppgjöri sem birt var í dag. Það er um þremur milljörðum króna minna en á sama tíma í fyrra. Fram kemur í uppgjörinu að hagnaður bankans á þriðja ársfjórðungi hafi numið rúmum 8,6 milljörðum króna sem er svipað og greiningardeildir hinna bankanna höfðu spáð.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að hreinar rekstrartekjur hafi aukist um 56 prósent milli ára og þar segir einnig að á fyrstu níu mánuðum ársins myndaðist 46 prósent af hagnaði bankans fyrir skatta af starfsemi utan Íslands. Heildareignir bankans voru 2.766 milljarðar og höfðu aukist um rúma 500 milljarða frá ársbyrjun.

„Á þriðja ársfjórðungi sjáum við fjölmörg jákvæð merki í rekstrinum og ég er afar ánægður með að tekjur bankans hafa aldrei verið meiri en á tímabilinu" segir Lárus Welding, forstjóri Glitnis. „Við sjáum áframhaldandi vöxt þóknanatekna, þrátt fyrir óróa á mörkuðum. Mikil viðskipti voru í Fjárfestingabankastarfseminni, sem skila 2,2 milljörðum í hagnað fyrir skatta og í Markaðsviðskiptum, sem skila 2,0 milljörðum í hagnað. Heildarútlán jukust um 145 milljarða á seinni hluta fjórðungsins eftir takmarkaðan lánavöxt fyrstu átta mánuði ársins. Þessi hækkun ætti að skila auknum vaxtatekjum á komandi ársfjórðungum. Vaxtamunurinn er undir væntingum en við reiknum með að sjá jákvæðan viðsnúning þar á næstu mánuðum," segir Lárus enn fremur í tilkynningu.

Bent er á að starfsfólki bankans hafi fjölgað um 600 á seinustu 12 mánuðum, þar af bættust 300 starfsmenn í hópinn þegar finnska fjármálafyrirtækið FIM var keypt fyrr á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×