Viðskipti innlent

Forstjóraskipti hjá Símanum

Sævar Freyr Þráinsson hefur verið ráðinn forstjóri Símans og tekur við starfinu af Brynjólfi Bjarnasyni frá og með næstu mánaðamótum. Brynjólfur færir sig hins vegar til móðurfélags Símans, Skipta, en hann hefur gegnt forstjórastarfi þar samhliða starfi sínu hjá Símanum.

Eftir því sem segir í tilkynningu frá Símanum hefur Sævar Freyr starfað hjá Símanum í tólf ár. Hann hefur undanfarin þrjú ár verið í framkvæmdastjórn Símans, fyrst sem framkvæmdastjóri farsímasviðs og nú síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Sævar Freyr situr í stjórn nokkurra fyrirtækja í eigu Skipta, þ.á.m. Sensa, Aerofone í Bretlandi, BusinessPhone í Danmörku og Nordisk Mobiltelefon sem er með starfsemi í Noregi og Svíþjóð.

Haft er eftir Brynjólfi Bjarnasyni að hann fram undan séu fjölmörg spennandi vaxtartækifæri hjá Símanum. „Sævar Freyr er búinn að vera lengi hjá Símanum og gjörþekkir reksturinn og markaðinn. Ég óska honum velfarnaðar í starfi og veit að Síminn mun áfram verða leiðandi félag undir hans stjórn." Brynjólfur segir að nú muni hann beina kröftum sínum að því að efla Skiptasamstæðuna. „Skráning Skipta í OMX-kauphöllina er eitt þeirra verkefna sem unnið er að og hefur í för með sér ýmis tækifæri fyrir félagið," segir Brynjólfur.

Sævar Freyr Þráinsson, nýr forstjóri Símans, segir fyrirtækið hafa háleit markmið fyrir utan starfsemi hér á landi. „Síminn hefur jafnframt sett sér það markmið til lengri tíma að verða öflugt félag í fjarskiptum og upplýsingatækni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Norðurlöndum og Bretlandi. Mitt verkefni verður að ná fram enn aukinni arðsemi í rekstri Símans og vinna með öflugu samstarfsfólki að því að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og nýta vel þau vaxtartækifæri sem félagið hefur," er haft eftir Sævari Frey.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×