Viðskipti innlent

Skuldir heimila í erlendri mynt nú 14% af heildinni

Gengisbundnar skuldir heimilanna halda áfram að vaxa og nema þær nú ríflega 14% af heildarskuldum þeirra við innlánsstofnanir. Heildarútlán innlánsstofnana til heimila námu tæplega 804 milljörðum kr. í septemberlok samkvæmt nýbirtum tölum frá Seðlabankanum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Glitnis. Þar kemur m.a. fram að af þessari upphæð voru 579 milljarðar kr. í formi verðtryggðra skuldabréfa, gengisbundin útlán námu 113 milljörðum kr. og 112 milljarðar kr. voru í öðrum útlánaformum á borð við yfirdrátt, óverðtryggð skuldabréf og eignarleigusamninga.

Skuldir heimila við innlánsstofnanir hafa aukist um 20% frá sama tíma í fyrra að nafnvirði. Aukningin er þó mun hraðari í gengisbundnum lánum, sem hafa tvöfaldast milli ára. Í síðasta mánuði jukust gengisbundnar skuldir heimilanna t.a.m. um tæpa 5 milljarða kr., en það jafngildir tæplega þriðjungi af heildaraukningu skulda heimila við innlánsstofnanir í síðasta mánuði.

Af skuldum innlendra fyrirtækja við innlánsstofnanir eru ríflega 61% í formi gengisbundinna skuldabréfa og yfirdráttarlána í erlendri mynt. Hæst er hlutfallið í útflutningsgreinum og öðrum þeim atvinnugreinum sem hafa verulegan hluta tekjuflæðis í erlendri mynt. Háir vextir í íslenskum krónum, hvort heldur sem eru til skamms eða langs tíma, virðast því hvetja bæði heimili og fyrirtæki til að færa skuldir sínar í auknum mæli yfir í aðra gjaldmiðla






Fleiri fréttir

Sjá meira


×