Viðskipti innlent

Íslendingar nálægt yfirtökumörkum í JJB Sports og Moss Bros

Íslenskir fjárfestar eru nálægt 30% yfirtökumörkum í bresku verslunarkeðjunum JJB Sports og Moss Bros. Þetta kemur fram í umfjöllun Hálf fimm frétta Kaupþingsbanka í dag. Þar er fjallað um markaðsverðmæti hlutabréfa íslenskra fjárfesta í verslanakeðjunum Debenhams, French Connection, JJB Sports, Moss Bros og Woolworths.

Fram kemur að markaðsverðmætin í þessum fimm verslanakepjum er nú 37,4 milljarðar kr.. Þegar Unity Investments flaggaði 4,87% í Debenhams þann 11. júní var þáverandi samanlagður eignarhlutur metinn á 44 milljarða króna en eina breytingin sem hefur orðið er sú að hlutur Unity og svo Baugs er nú samanlagt orðinn 13,5%. Það er eignarhlutur upp á 14,2 milljarða króna.

"Gengi fyrirtækjanna fimm hefur fallið um 26-48% á þessu ári án þess að tillit sé tekið til arðgreiðslna; Debenhams mest en French Connection minnst. Gengisþróunin hefur verið einkar óhagstæð frá því í sumarbyrjun er slæmt veðurfar tók að setja mark sitt á afkomu félaganna," segir í Hálf fimm fréttum. "Hafa félög á borð við JJB Sports birt neikvæðar afkomuviðvaranir eins og reyndar mörg félög úr geiranum. Exista og forstjórinn Chris Ronnie keyptu um 29% hlut í JJB Sports snemma í júní fyrir 190 milljónir punda, jafnvirði 24 milljarða króna, á genginu 275 pens á hlut. Verðmæti hlutarins hefur fallið um 81 milljón punda eða um tæp fjörutíu prósent.

Baugur Group hefur einkum verið duglegur að kaupa bréf þegar þau hafa fallið í verði. Þar sem bréfin hafa haldið áfram að falla í verði má telja auknar líkur á því að einhver þessara félaga verði hreinlega tekin yfir af Íslendingum fyrr eða síðar. Íslensku fjárfestarnir eru til dæmis nálægt 30% yfirtökumörkum í JJB Sports og Moss Bros






Fleiri fréttir

Sjá meira


×