Viðskipti innlent

Glitnir semur í Shanghai

Glitnir og kínverska matvælafyrirtækið Fu Ji skrifuðu í dag undir samning sem felur í sér að Glitnir mun verða ráðgjafi Fu Ji, við vöxt fyrirtækisins á kínverska markaðinum. Með samningnum hyggst Fu Ji nýta sér þekkingu Glitnis á alþjóðlegri matvælaframleiðslu. Skrifstofa bankans í Shanghai mun leiða verkefnið fyrir Glitni en þar er að finna mikla þekkingu á kínverskum markaði.

Samningurinn við Fu Ji var undirritaður í móttöku í Shanghai, en meðal viðstaddra var forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson sem staddur er í Shanghai vegna "Special Olympic" leikanna.

Fu Ji er umsvifamesta fyrirtækið í Shanghai sem sérhæfir sig í alhliða þjónustu með tilbúin hágæða matvæli. Fyrirtækið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og samningurinn nú gerir fyrirtækinu kleift að vaxa enn frekar. Fu Ji er skráð í Kauphöllina í Hong Kong og er markaðsvirði félagsins um 150 milljarðar íslenskra króna.

Fu Ji afgreiðir yfir eina milljón máltíða á degi hverjum. Auk veisluþjónustu rekur Fu Ji veitingastaði og leggur fyrirtækið áherslu á að nýta sameiginlegan styrk þessara rekstrareininga til að þróa persónulega þjónustu og lausnir fyrir viðskiptavini sína.

Wei Dong, stjórnarformaður Fu Ji segir samninginn við Glitni mikilvægt skref fyrir Fu Ji: „Við höfum vaxið hratt á undanförnum árum og viðskipti okkar í Kína ganga mjög vel. Við stefnum að frekari vexti og þar gegnir Glitnir lykilhlutverki. Bankinn hefur framúrskarandi viðskiptanet og sérfræðiþekkingu á sviði matvælaiðnaðar og þá sérfræðiþekkingu viljum við notfæra okkur."

Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis segir samkomulagið við Fu Ji vera mjög mikilvægt fyrir bankann. „Fu Ji er vel í stakk búið fyrir áframhaldandi vöxt á þeim sviðum sem fyrirtækið einbeitir sér að og við teljum okkur hafa þekkingu sem muni nýtast þeim til að ná þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér á næstu árum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×