Viðskipti innlent

Töluverð lækkun í Kauphöllinni í morgun

MYND/Stefán

Töluverð lækkun varð í Kauphöll Íslands þegar markaðir voru opnaðir í morgun klukkan 10 og lækkaði úrvalsvísitalan um 3,35 prósent. Gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum lækkaði mest. Þannig lækkaði gengi bréfa í Landsbankanum um 5,28 prósent, hjá Exista um 5,23, Kaupþingi um rúm fjögur prósent og Föroya Bank og Straumi um rúm þrjú prósent. Öll hlutabréf í Kauphöllinni hafa ýmist lækkað eða staðið í stað. Þetta er í takt við lækkanir á mörkuðum í Asíu í morgun en hins vegar varð hækkun á bréfum í kauphöllinni í Lundúnum í morgun þótt hún væri ekki mikil.

Greint var frá því í breska blaðinu Sunday Times í gær að bankamenn óttuðust að fjármálakreppa væri í aðsigi vegna mikillar endurfjármögnunar hjá bönkum sem væri í uppsiglingu. Rúmlega sjö þúsund milljarðar króna koma til endurfjármögnunar í næstu viku og hefur upphæðin aldrei verið meiri í sögunni. Fyrirsjáanlegt sé að bankar víðs vegar um heim hafi ekki bolmagn til taka á sig svo miklar skuldbindingar meðal annars vegna skorts á lánsfé. Er því spáð að þeir muni draga verulega úr útlánastarfsemi til fjárfestingafélaga og annarra banka og jafnvel stöðva hana alveg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×