Innlent

Þyrlan líklega ónýt vegna seltu

Gissur Sigurðsson skrifar
Komið var með þyrluna til lands í nótt og hún flutt í flugskýli í Reykjavík til rannsóknar.
Komið var með þyrluna til lands í nótt og hún flutt í flugskýli í Reykjavík til rannsóknar. MYND/ Vilhelm Gunnarsson
Þyrla Landhlegisgæslunnar, sem brotlenti í sjónum út af Straumsvík í gærkvöldi, var dregin til lands í nótt og flutt í flugskýli við Reykjavíkurflugvöll til rannsóknar. Vonast er til að upplýsingar úr flugrita hennar varpi ljósi á atburðinn.

Talið er að þyrlan, sem þjónað hefur hér við björgunarstörf í rúma tvo áratugi, sé ónýt þar sem selta komst í allan viðkvæman rafbúnað hennar. Að sögn Rannsóknanefndar flugslysa, sem hefur nú umsjón með þyrlunni, eru tildrög atviksins ókunn, en flugriti hennar verður sendur til aflestrar í Bretlandi.

TF SIF er 22 ára af gerðinni Aerospatiale SA 365 Dauphine, smíðuð í Frakklandi. Hún varð fyrir alvarlegu áfalli í maí árið 2001, þegar hún lenti í mjög óvenjulegum veðuraðstæðum í lágflugi á sunnanverðu Snæfellslnesi. Þá svignaði stélið upp þannig að skrúfublöðin tættu úr stélinu og skjálfti kom á þyrluna. Flugmönnunum tókst strax að lenda henni áfallalaust og var hún endurbyggð eftir óhappið. Engar líkur benda til að slík skilyrði hafi myndast við Strumsvík í gær. Hún er tveggja hreyfla og á að geta flogið eðlilega, þó með takmörkunum, þótt annar hreyfillinn missi afl.

Getgátur voru uppi um það fyrst eftir óhappið í gærkvöldi að hún hefði misst afl, en afar ólíklegt er að báðir hreyflar bili samtímis. Sér útbúnaður í henni er meðal annars hitamyndsjá, öflugt leitarljós og björgunarspil. Flotbelgirnir, sem héldu henni á floti, blásast sjálfkrafa út við lendingu á sjó.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×