Innlent

Ólöglegum innflytjanda bjargað um borð í Búðafell við Möltu

Ólöglegum innflytjanda var bjargað um borð í togarann Búðafell úti fyrir ströndum Möltu í síðustu viku. Aðrir þrír björguðu sér með því að hanga á fleka sem skipið dró á eftir sér. Talið er að tuttugu félagar mannanna hafi drukknað þegar lítilli bátskænu þeirra hvolfdi.

Mennirnir eru frá Malí og Fílabeinsströndinni og ætluðu að smygla sér til Evrópu. Búðarfell er nú skráð á Möltu og í eigu þarlends fyrirtækis en áður var það gert út frá Hvammstanga og Fáskrúðsfirði snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Albert Kemp, fyrrverandi skipaskoðunarmaður á Austurlandi, sagði í samtali við fréttastofu að skipið hefði verið selt þaðan til Hafnarfjarðar með mikinn rækjukvóta og síðan til útlanda.

Ekki hafa nýir eigendur haft fyrir því að skipta um nafn eins og þessi mynd sýnir. Dagblaðið Times of Malta rifjar upp að Búðafell hafi orðið miðdepill deilu í síðasta mánuði þegar tuttugu og sjö ólöglegir innflytjendur máttu dúsa á flekanum sem skipið dregur í þrjá daga áður en þeim var bjargað um borð í ítalskt skip.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×