Innlent

Skerðing þorskkvóta kallar á skerðingu í veiðum á öllum bolfisktegundum

Sjómenn og útvegsmenn segja að draga verði sjálfkrafa úr veiðum á öllum bolfisktegundum verði þorskvótinn lækkaður niður í 130 þúsund tonn nema að menn vilji gerast brotlegir við lög.

Menn úr þessum greinum sem fréttastofan ræddi við í morgun rökstyðja þetta svo að þorskhlutfallið sé svo hátt þegar verið er að veiða aðrar tegundir að skertur þorskkvóti dugi ekki á móti hinum veiðunum.

Það blasi því við mönnum að gerast brotlegir og henda þorski í stórum stíl til að ná kvótanum í hinum bolfisktegundunum eða leggja niður skottið og hætta veiðum án þess að vera búnir að veiða kvóta sína í öðrum tegundum til fulls.

Þeir benda á að bara til að ná óbreyttum ýsukvóta á næsta fiskveiðiári þurfi meira en 130 þúsund tonn af þorski á móti þeim ýsuafla miðað við aflasamsetningu undanfarinna ára. Hvergi séu til hrein ýsumið frekar en hrein mið annarra tegunda.

Þá er þorskur vaxandi meðafli á hefðbundnum grálúðumiðum þannig að stöðugt þarf meiri þorsk á móti þeim veiðum og þorskur slæðist ávalt með þegar verið er að veiða karfa, ufsa og fleiri tegundir. Þeir segja því tómt mál að tala um að auka kvóta annarra tegunda, ef þorskkvótinn verður skertur, eins og ýjað er að í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif aflareglu sem út kom í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×