Innlent

Sex þúsund bílar um Sandskeið á fjórum tímum

Rúmlega sex þúsund bílar fóru um Sandskeið á Suðurlandsvegi milli klukkan fjögur og átta í gær, sem er 17 prósent meiri umferð en síðdegis á sama sunnudegi fyrir ári.

Gríðarlegar bílalestir mynduðust á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi í átt til höfuðborgarsvæðisins undir kvöld og fór ekki að draga úr umferð fyrr en á tíunda tímanum í gærkvöldi.

Um tíma var samfelld bílalest frá Reykjavík alveg upp að Grundartanga og var gripið til þess ráðs að hleypa umferð á Hvalfjarðargöng í hollum svo vegfarendur þyrftu ekki að dvelja lengi í menguninni þar.

Þá náði bílalestin á Suðurlandsvegi alveg upp á Hellsiheiði, langleiðina að Kambabrún og voru ökumenn allt að klukkustund þaðan til Reykjavíkur. Eitt umferðarslys varð á Biskupstungnabraut og annað á Reykjanesbraut síðdegis en engin slasaðist alvarlega.

Þetta er mesta umferð sem mælst hefur á Suðurlandsvegi, eða 11 prósentum meiri en en fyrra met frá 23. júlí í fyrra. Umferðin var hins vegar heldur minni um Vesturlandsveg en í fyrra. Þá lengdi það lestirnar verulega hversu margir bílar drógu vagna af ýmsum gerðum, eða hjólhýsi, jeppakerrur, fellihýsi, hestakerrur, mótorhjólakerrur og bátakerrur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×