Innlent

Hættur landgræðslu og verður farþegaflugvél

Eftir 34 ár við uppgræðslu landsins er þristurinn Páll Sveinsson hættur landgræðsluflugi og verður breytt á ný í farþegaflugvél. Í dag fór vélin í fyrstu kolefnisjöfnuðu flugferðina á Íslandi.

Gamli þristurinn sinnti reyndar landgræðslustarfi í dag en þó með óbeinum hætti því ráðmenn Icelandair og Kolviðarverkefnisins, undir forystu Guðfinnu Bjarnadóttur alþingismanns notuðu vélina til að kynna verkefni í þágu skógræktar. Ávísun upp á 745 krónur sýnir hvað kostaði að kolefnisjafna hálftíma flugferð á þristinum en mótvægisaðgerðin eru fimm tré komin í íslenska jörð. Farþegum Icelandair býðst nú að kolefnisjafna flugferðir sínar með því að greiða mótframlag til Kolviðarsjóðsins. Til að bæta fyrir þá mengun sem hlýst af því að flytja hvern farþega til Kaupmannahafnar þarf þannig að planta trjám á móti sem kosta um 500 krónur. Af Páli Sveinssyni er það annars að frétta að hann verður ekkert notaður í sumar til áburðardreifingar. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og varaformaður Þristavinafélagsins telur raunar að flugvélin hafi farið í sitt síðasta landgræðsluflug. Sú áherslubreyting hafi orðið í landgræðslustarfinu að bændur og verktakar sinni nú dreifingunni. Einnig sé nú meiri áhersla lögð á sáningu melgresis sem ekki sé hægt að gera með flugvél. Það sé auk þess orðið of kostnaðarsamt að nota flugvél í ljósi þess hve litlu sé dreift. Páll Sveinsson sinnti landgræðsluflugi fyrst árið 1973 eða fyrir 34 árum. Áður var vélin notuð í innanlandsflugi hjá Flugfélagi Íslands og hét þá Gljáfaxi og segir Sveinn Runólfsson þristavinafélagið nú stefna að því að breyta vélinni aftur í farþegaflugvél og nota hana til útsýnisflugs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×