Innlent

Ólafur Þór Gunnarsson mótmælir ásökunum Gunnars Birgissonar

Ólafur Þór Gunnarsson bæjarfulltrúi VG
Ólafur Þór Gunnarsson bæjarfulltrúi VG MYND/Vísir

Ólafur Þór Gunnarsson bæjarfulltrúi VG í Kópavogi hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar viðtals við Gunnar I. Birgisson, bæjarstóra í Kópavogi, í Kastljósinu í gær. Þar hélt Gunnar því fram að fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna daga væri runnin undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna og að bæjarfulltrúar hefðu farið með róg um hann í fjölmiðla.

Ólafur mótmælir þessum ásökunum og segir þær ósannar. "Afstaða mín og vinstri grænna til starfsemi sem hlutgerir líkama kvenna er öllum sem vilja vita ljós, og fyrir þeirri skoðun hef ég talað hvað eftir annað á opinberum vettvangi, án þess að hafa blandað persónu Gunnars Birgissonar í þá umræðu," segir Ólafur í yfirlýsingunni. Hann bendir í því sambandi á bókun í bæjarstjórn Kópavogs þann 12. júní s.l. sem á eftir fer:

"Vinstri græn lýsa sig alfarið á móti því að í Kópavogi sé rekin starfsemi sem hlutgerir líkama kvenna. Klámiðnaður og starfsemi tengd honum á ekki að eiga skjól í bænum. Vinstri græn telja að leita eigi allra leiða til að úthýsa slíkri starfsemi úr bæjarfélaginu. Sú umræða sem fram hefur farið undanfarna daga um mansal, vændi og skerðingu á ferðafrelsi starfsfólks ýtir enn frekar undir þessa skoðun VG"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×