Innlent

Formaður Sniglanna harmar bifhjólaslys

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sniglarnir fordæma alla hegðun sem felur í sér lögbrot.
Sniglarnir fordæma alla hegðun sem felur í sér lögbrot. MYND/VG

Almenningur ætti að varast að dæma alla bifhjólamenn út frá framferði bifhjólamannanna tveggja í nótt að sögn Valdísar Steinarsdóttur, formanns Sniglanna. Hún harmar atburðinn og segir að hugur allra félagsmanna í Sniglunum dvelji hjá þeim sem að málinu koma.

„Við hörmum að sjálfsögðu að þetta hafi gerst," sagði Valdís Steinarsdóttir, formaður Sniglanna, í samtali við Vísi. „Þetta er félagsmaður sem liggur illa slasaður og okkar hugur er með öllum þeim sem tengjast þessu erfiða máli."

Tveir bifhjólamenn slösuðust illa í nótt eftir annar þeirra ók aftan á bíl og missti stjórn á hjólinu. Félagi hans á öðru bifhjóli missti stjórn á sínu hjóli við slysið og skall í götuna. Lögreglan hafði fyrr reynt að stöðva mennina eftir að þeir höfðu mælst á hátt í 180 kílómetra hraða á klukkustund. Annar þeirra slösuðu er fyrrverandi stjórnarmaður í Sniglunum.

Valdís segir Sniglana fordæma alla hegðun sem felur í sér lögbrot. „Það gilda lög í landinu og það á sjálfsögðu að fara eftir þeim. Í landinu eru mörg þúsund bifhjólamenn og aðeins lítill hluti þeirra fer ekki að lögum. Almenningur skyldi varast að dæma heildina vegna framferðis nokkurra einstaklinga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×