Innlent

Laun seðlabankastjóra hafa hækkað um 25 prósent síðan 2005

MYND/GVA

Hörð samkeppni um hæft starfsfólk á meðal fjármálastofnana réð því að bankaráð Seðlabankans ákvað að hækka laun bankastjóra. Þetta kemur fram í skriflegu svari Helga S. Guðmundssonar, formanns bankaráðs Seðlabankans, við fyrirspurn fréttastofu Stöðvar 2. Frá ársbyrjun 2005 hafa laun bankastjóra Seðlabankans hækkað um 25 prósent.

Í fyrirspurn fréttastofu Stöðvar 2 var óskað eftir upplýsingum um launahækkanir seðlabankastjóra undanfarin þrjú ár og afhverju ákveðið var að hækka launin nú. Þá var ennfremur óskað eftir upplýsingum um önnur fríðindi bankastjóra.

 

Í svari sínu vísar Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs Seðlabankans, í ræðu sem hann hélt á ársfundi bankans 30. mars síðastliðinn. Þar sagði hann að hörð samkeppni ríkti á milli fjármálastofnana um hæft starfsfólk. Afar mikilvægt værir fyrir Seðlabankann að hafa jafnan í þjónustu sinni eins gott starfslið og völ er á og því verði hann að taka mið að ríkjandi umhverfi til þess að svo verði.

Frá árinu 2005 hafa laun bankastjóra hækkað um 25 prósent. Í ársbyrjun 2005 hækkuðu launin um 15 prósent, 5 prósent í ársbyrjun 2006 og aftur um 5 prósent í ársbyrjun 2007. Frá 1. janúar á næsta ári munu laun bankastjóra nema alls 1.409.535 krónum.

Ennfremur segir í svari Helga að bankastjórar hafi til umráða bifreið sem bankinn leggi þeim til og greiðir kostnað af. Þá greiðir bankinn einnig símakostnað bankastjóranna.

Þá kemur fram í svari Helga að formaður bankastjórnar fær 8 prósent álag á laun bankastjóra. Þá fá bankastjórar einnig greidda bankaráðsþóknun eins og hún er ákveðin hverju sinni af forsætisráðherra. Nú nemur hún 110 þúsund krónu og fær formaður bankastjórnar tvöfalda þóknun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×