Innlent

Samherji boðar samdrátt vegna erfiðrar stöðu í sjávarútvegi

MYND/GVA

Fyrirhuguðum framkvæmdum útgerðarfyrirtækisins Samherja hf. við uppbyggingu landvinnslunnar á Dalvík verður frestað um eitt ár. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja. Hann segir erfiðleikar í íslenskum sjávarútvegi vegna óhagstæðrar gengisþróunar, hárra vaxta og niðurstöður Hafrannsóknarstofnunar um ástand þorskstofnsins gera það að verkum að fresta verði framkvæmdunum.

Í yfirlýsingunni kemur fram að í febrúar síðastliðnum hafi Samherji sett sér það markmkið að byggja upp landvinnslu félagsins á Dalvík og gera hana þá fullkomnustu í heimi. Mikil vinna hafi verið lögð í undirbúning verkefnisins á síðustu mánuðum og allar áætlanir liggi núi fyrir.

Í millitíðinni hafi allar ytri aðstæður landvinnslu á Íslandi hins vegar snúist mjög til verri vegar. Hráefnisverð hafi hækkað um 30 prósent frá áramótum og gengi krónunnar styrkst um 10 prósent á sama tíma. Þessar breytingar ásamt öðrum kostnaðarhækkunum innanlands hafi það í för með sér að framlegð vinnslunnar hafi minnkað verulega.

Þá segir ennfremur í yfirlýsingunni að veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um minnkaðar aflaheimildir í þorski séu mikið áfall og vart til þess fallinn að auka bjartsýni hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×