Innlent

Klórgasleki hjá Mjöll-Frigg á Akureyri

Björn Gíslason skrifar

Efnaverksmiðja Mjallar-Friggjar var rýmd í morgun eftir að klórgas lak út í rými í kjallara hússins. Að sögn Þorbjörns Haraldsson, slökkviliðsstjóra á Akureyri, gaf klórgasslanga sig með þeim afleiðingum að klórgas lak út en starfsmaður verksmiðjunnar sýndi snör handbrögð og náði að skrúfa fyrir klórgasið.

Hann mun hafa orðið fyrir lítils háttar klórgaseitrun og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til skoðunar. Bæði dælubíll og sjúkrabíll frá slökkviliðinu voru sendir á vettvang og fóru tveir efnakafarar inn í rýmið með eiturefnamæli.

Lítið af klórgasi mun hafa sloppið út frá verksmiðjunni og þá var vindátt hagstæð, sunnanátt þannig að gasið fór út á Eyjafjörðinn. Slökkvilið felldi niður eiturefnaský í kjallaranum með vatni og í kjölfarið var rýmið ræst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×