Innlent

Sjómenn heiðraðir í tilefni dagsins

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land í dag. Sjómenn voru heiðraðir og sjómannaguðsþjónustur fóru fram. Sjómannaguðþjónusta fór fram í Dómkirkjunni í morgun. Öll fiskiskip íslenska flotans eru í landi í dag og margir sem tóku tóku þátt í hátíðarhöldum víða um land.

Á miðbakkanum í Reykjavík var ýmislegt um að vera en þar mátti meðal annarra hluta finna furðufiska sem til sýnis voru. Slysavarnarfélagið Landsbjörg veitti áhöfnum sem sótt höfðu námskeið hjá skólanum viðurkenningu um borð í Slysavarnarskóla sjómanna, Sæbjörginni.

Sérstök hátíðardagskrá fór fram í Hafnarhúsinu þar sem sjómenn voru heiðraðir fyrir sín störf. Fimm fengu heiðursmerki sjómannadagsins en á meðal þeirra var Þröstur Sigtryggsson sem hóf sjómennsku árið 1947 og var skipherra hjá Landhelgisgæslunni um árabil og tók þátt í þorskastríðunum.

Haldið var upp á 50 ára afmæli Hrafnistu í Reykjavík og 30 ára afmæli Hrafnistu í Hafnarfirði í dag. Fjölbreytt dagskrá var í boði og söng Þorvaldur Halldórsson meðal annars nokkur sjómannalög.

Á báðum Hrafnistuheimilunum er dagskrá fyrir heimilisfólk og aðstandendur þeirra fram eftir kvöldi. Á Hrafnistu í Hafnarfirði verður afmælikvöldvaka en á Hrafnistu í Reykjavík verður slegið upp skemmtun í sérstöku tjaldi fyrir utan heimilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×