Innlent

Sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir erfiðum ákvörðunum

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birtir innan skamms úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu og mismunandi veiðihlutfalli á þorski. Útflutningstekjur af þorski eru fjörtíu prósent af heildarútflutningstekjum í sjávarútvegi. Formaður LÍÚ segir að sársaukafullt verði að draga úr veiðunum.

Sjávarútvegsráðherra gerði niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar sem birt var í gær að sérstöku umtalsefni í ræðu sem hann hélt vegna hátíðarhalda Sjómannadagsins í dag. Í skýrslunni er dreginn upp nokkuð dökk mynd af ástandi þorskstofnsins og lagt til að dregið verði verulega úr þorskkvóta á næsta fiskveiði ári.

Stofnunin leggur til að veiðihlutfall þorsk verði sett niður í 20% en langtímamarkmið gildandi aflareglu er að veiðihlutfallið sé sem næst 25%. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að þorskvótinn á næsta fiskveiði árið verði 130 þúsund tonn í stað 178 þúsund tonna.

Sjávarútvegsráðherra segir að erfið ákvörðun sé framundan. Hann hafi hug á að eiga gott samstarf um málið á þverpólitískum grundvelli og hyggst leita eftir því við forystumenn stjórnmálaflokkanna.

Sjávarútvegsráðherra sagði að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands myndi innan skamms birta úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu og mismunandi veiðihlutfalli á þorski.

Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, sagði í sinnu ræðu að sársaukafullt yrði að draga úr kvótanum. Tryggja þyrfti að þeir sem misstu kvóta fengju hann aftur þegar hann yrði aukinn á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×