Innlent

Jákvætt að einkaaðilar vilji leggja fram fjármagn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Forsvarsmenn Grensásdeildar Landspítalans og sjúklingar sem þar þiggja þjónustu segja það jákvætt að einkaaðilar vilji leggja fram fjármagn til að reisa nýja álmu við deildina. Aðstaðan sé nokkuð þröng, en mikil aukning hefur verið á starfsemi deildarinnar undanfarin ár.

Forstjóri Sjóva hefur lýst því yfir að fyrirtækið sé í félagi við aðra tilbúið að leggja fram fjármagn til að stækka húsnæði Grensásdeildar Landspítala-Háskólasjúkrahús. Á deildinni fer fram endurhæfing sjúklinga. Aðilarnir myndu reisa viðbyggingu en leigja hana svo á sanngjörnu verði til spítalans.

Grensásdeild var tekin í notkun árið 1973 en síðustu árin hefur þeim sem þangað leita fjölgað að meðaltali um 20% ár ári. Sviðstjóri endurhæfingarsviðs Landspítala-Háskólasjúkrahús tekur vel í hugmynd forstjóra Sjóva og segir löngu tímabært að byggja við deildina. Skúli Bergman Hákonarson hefur síðustu fimm mánuðina hafst við á deildinni og segir þjónustuna sem þar er veitt vera mikilvæga fyrir bata sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×