Innlent

Ekki ástæða til að ætla að lög og reglur hafi verið brotin

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Félagsmálaráðherra telur ekki ástæðu til að ætla að lög og reglur um virkjunarsamninga og aðbúnað á Kárahnjúkasvæðinu hafi verið brotin. Sendiherra Portúgala á Íslandi skoðaði vinnusvæðið í dag.

Sendiherrann hefur í dag kannað aðstæður landa sinna sem starfa á Kárahnjúkum ásamt konsúl Portúgala hér á landi og Oddi Friðrissyni yfirtrúnaðarmanni starfsmanna á svæðinu.

Portúgalskur verkamaður sem bjó og starfaði á Kárahnjúkum dró í viðtali við portúgalska fjölmiðla fyrir skömmu upp dökka mynd af ástandinu þar. Hann líkti aðstæðum verkamannanna við þrælahald. Sendiherrann vildi með ferð sinni kanna hvort að ásakanir hans eigi við rök að styðjast.

Á undanförnum dögum hafa íslenskar konur sem starfað hafa við framkvæmdirnar komið fram og sagt konur hafa verið kynferðislega áreittar á svæðinu. Stúlka sem starfaði sem öryggisfulltrúi á svæðinu hélt þessu meðal annars fram í viðtali hjá Ríkissjónvarpinu í vikunni.

Í gær hittist samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og fjallaði um málið. Hún hefur nú falið Vinnueftirlitinu að kanna meintar ásakanir um kynferðislega áreitni á svæðinu.

Félagsmálaráðuneytið hefur skoðað almennt ásakanir um slæman aðbúnað á svæðinu. Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, telur ekki ástæðu til að ætla, eftir athugun Vinnueftirlitsins, Vinnumálastofnunar og fund með Alþýðusambandi Íslands að lög og reglur um virkjunarsamninga og aðbúnað á svæðinu hafi ekki verið brotin. Jóhanna segir eftirlit með svæðinu sé mikið og aðstæður oft erfiðar en tekið hafi verið á þeim málum sem upp hafa komið hverju sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×