Innlent

Þrítugur veggjakrotari handtekinn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar

Þrítugur karlmaður var handtekinn á Reykjavíkurflugvelli laust eftir hádegi í dag. Það teldist varla til frásögu færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að krotarinn er á fertugsaldri.

Hann var staðinn að veggjakroti utan við farþegaafgreiðsluna við Þorragötu að sögn lögreglu og var hann færður á lögreglustöð. Lögregla segist ekki vita hvað honum gekk til með uppátækinu.

„Veggjakrot er töluvert vandamál á höfuðborgarsvæðinu en það er fátítt að fullorðið fólk sé tekið fyrir slíka iðju," segir í tilkynningu frá lögreglunni. Í nær öllum tilfellum eru gerendur börn og unglingar en þegar til þeirra næst eru þau látin þrífa krotið af ef því verður við komið. Lögregla segir ekki víst á þessari stundu hvort hinn aldni listamaður verði látinn þrífa eftir sig en hann á að minnsta kosti yfir höfði sér sekt.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×