Innlent

HÍ og Harvard rannsaka saman blöðruhálskrabbamein

Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Faraldsfræðideild Harvard-háskóla undirrita á þriðjudag viljayfirlýsingu um samstarf sem felur í sér sameiginleg rannsóknarverkefni og uppbyggingu á framhaldsmenntun í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Ætla skólarnir jafnframt að vinna að rannsóknarverkefni á krabbameini í blöðruhálskirtli sem byggir á einstökum íslenskum gögnum.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Háskóla Íslands er nýbúið að stofna Miðstöð í lýðheilsuvísindum við HÍ og fer hún með þverfræðilegt meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum. Um 50 nemendur hefja nám við deildina í haust og munu kennarar og nýdoktorar við Faraldsfræðideild Harvard-háskóla taka þátt í þróun námsbrautarinnar ásamt því að kenna námsefnið.

Verkefnið sem snýr að rannsókn á krabbameini í blöðruhálskirtli er á byrjunarstigi en slíkt krabbamein er í dag næstalgengasta dánarorsökin vegna krabbameina hérlendis. Auk Harvard-háskóla koma Krabbameinsfélagið, Hjartavernd og Landspítalinn að rannsókninni. Hún snýr að áhættuþáttum sem og forspárþáttum um framvindu sjúkdómsins og lífsgæðum sjúklinga.

Rannsóknin er studd af Krabbameinsfélaginu Framför sem stendur fyrir umfangsmikilli fjáröflun til handa verkefninu, en Framför er nýstofnað félag til stuðnings rannsókna og fræðslu á krabbameini í blöðruhálskirtli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×