Innlent

Metaðsókn hjá Leikfélagi Akureyrar

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/GVA

Tæplega 27 þúsund manns sáu sýningar Leikfélags Akureyrar í vetur og hafa leikhúsgestir aldrei verið fleiri. Þá sáu um 11 þúsund manns sýningar leikfélagsins í höfuðborginni. Leikhússtjóri segir árangurinn byggjast fyrst og fremst á frábæru starfsfólki og velheppnuðu verkefnavali leikhússins.

„Við erum öll í skýjunum og afskaplega þakklát fyrir þann áhuga sem áhorfendur sýna okkur," sagði Magnús Geir Þórðarson, leihússtjóri Leikfélags Akureyrar, í samtali við Vísi.

Aðsókn að sýningum Leikfélags Akureyar hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin þrjú leikár. Í vetur sáu 27 þúsund manns sýningar leikhússins en árið þar á undan voru gestir um 25 þúsund talsins og fjölgar því um tvö þúsund milli ára. Leikárið 2004 til 2005 sáu 18.800 manns sýningar Leikfélags Akureyrar.

Þá sáu um 11 þúsund manns uppsetningar leikfélagsins í Reykjavík í vetur en fyrra voru þeir 17 þúsund talsins.

Magnús segir margt skýra góða aðsókn að sýningum leikfélagsins. „Í fyrsta lagi virðast verkin sem við höfum valið hafa fallið í kramið hjá áhorfendum. Í öðru lagi er starfsfólkið frábært og svo hefur okkur tekist að fá til liðs við okkur frábæra listamenn sem hafa náð að töfra fram úr sýningunum það sem fólk vill sjá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×