Viðskipti innlent

Grunnt í sjóðum viðskipta- og hagfræðinga

Þröstur Olaf Sigurjónsson, formaður Félags viðskipta- og hagfræðinga Í apríl lét FVH í annað sinn vinna könnun á hugmyndum viðskipta- og hagfræðinga um starfslok sín. Ýmislegt við niðurstöður könnunarinnar kemur á óvart.
Þröstur Olaf Sigurjónsson, formaður Félags viðskipta- og hagfræðinga Í apríl lét FVH í annað sinn vinna könnun á hugmyndum viðskipta- og hagfræðinga um starfslok sín. Ýmislegt við niðurstöður könnunarinnar kemur á óvart.

Á morgun, fimmtudag, kynnir Félag viðskipta- og hagfræðinga niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í apríl meðal félagsmanna. Félagið vildi komast að því hvort viðskipta- og hagfræðingar huguðu að starfslokum sínum, hvort þau væru skipulögð og hvernig undirbúningi þeirra væri háttað. Könnunin var gerð meðal fjögur hundruð félagsmanna FVH í apríl. Fundurinn er opinn öllum og ókeypis fyrir félagsmenn.

Þröstur Olaf Sigurjónsson, formaður Félags viðskipta- og hagfræðinga og lektor við HR, átti hugmyndina að gerð könnunarinnar, sem fyrst var framkvæmd fyrir tveimur árum og aftur nú. „Þegar ég var við framhaldsnám í Barcelona fyrir um tíu árum kynntist ég fólki sem var að hefja sinn starfsferil. Margt af því hafði hug á að fara út í fjárfestingarbankastarfsemi. Launin og ekki síst bónusarnir í störfum þeirra gáfu kost á því. Margt þeirra ætlaði sér að hætta að vinna á bilinu 40 til 45 ára.”

Á þessum tíma voru ekki til fjárfestingar­bankar á Íslandi en þeir hafa sprottið hér upp að undanförnu. Þresti þótti forvitnilegt að heyra hvernig viðskipta- og hagfræðingar, sem eru stór hluti þess fólks sem starfar í fjármálageiranum og ber oft mikið á, sæju fyrir sér starfslok sín. „Af umræðunni að dæma mætti ætla að fólk eignaðist nú peninga mun fyrr á lífsleiðinni en áður. Þjóðfélagið er gegnsýrt af umræðunni um peninga og sögum af auðmönnum. Þá er gríðarleg eftirspurn eftir þessari viðskipta- og hagfræðimenntun. Mig langaði að skoða hvernig raunveruleikinn samræmdist þessum hugmyndum.“

Könnunin sem gerð var fyrir tveimur árum felldi nokkrar af þeim hugmyndum sem uppi hafa verið um stéttina viðskipta- og hagfræðinga. Í ljós kom að flestir hafa nokkuð hefðbundnar hugmyndir um starfslok sín. Þá virðist stéttin ekki eiga mikla peninga á lausu. Bæði eru meðallaun hennar ekki sláandi há og hún sparar áberandi lítið.

Engin frumkvöðlastétt

Viðskipta- og hagfræðingar virðast hafa bætt sig nokkuð í því að undirbúa starfslok sín. Hlutfall þeirra sem ekki hafa sett sér markmið hefur lækkað úr 42 prósentum í 37 prósent. Fleiri hafa sett sér fjárhagsleg markmið um starfslok sín en markmið um tímasetningu.

Þeim viðskiptafræðingum og hagfræðingum sem geta hugsað sér að hætta fyrr en við eftirlaunaaldur hefur fjölgað nokkuð. Almennt séð liggur stéttinni þó ekki á að fara út af vinnumarkaði. Einungis 1,3 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni ætla að hætta að vinna fyrir fimmtíu árin. Langflestir ætla að hætta störfum á bilinu 61 til 65 ára. Margir geta þó hugsað sér að minnka við sig vinnu eða starfa sem sjálfstæðir ráðgjafar.

Átta prósent kjósa að skipta yfir í annan starfsvettvang. Þá nefna þó nokkrir eigin fjárfestingar nú. Sú hugmynd komst ekki á blað árið 2005.

Það kemur sennilega ýmsum á óvart að stétt viðskipta- og hagfræðinga geymir fáa frumkvöðla. Afar fáir viðskipta- og hagfræðingar geta hugsað sér að fara út í eigin rekstur.

Upp til hópa venjulegt fólk

Stéttinni gengur ívið betur að leggja fyrir nú heldur en fyrir tveimur árum síðan. Fleiri eiga stærri sjóði nú en þá. Langflestir leggja fyrir. Þó er ekki um háar fjárhæðir að ræða. Um helmingur viðskipta- og hagfræðinga sparar fimmtán til fimmtíu þúsund krónur á mánuði. Ungt fólk undir 35 ára sparar minnst og á grynnstu sjóðina.

Fyrir utan lífeyrissparnaðinn eiga langsamlega flestir minna en þrjár milljónir króna í sjóði. Þeim fer fækkandi sem eiga meira en það. Þrjú prósent stéttarinnar eiga meira en hundrað milljónir í sjóði. Þessar tölur eru svipaðar niðurstöðunum árið 2005. Það er nokkuð sérstakt í ljósi mikillar verðhækkunar eigna á tímabilinu.

Til viðbótar við að viðskipta- og hagfræðingar spari ekki mikið eru þeir upp til hópa ekki á fljúgandi háum launum. Tuttugu prósent hjóna, þar sem annað er viðskipta- eða hagfræðingur og hefur tekið þátt í könnuninni, eru með heildartekjur sem fara yfir milljón á mánuði. Restin er undir því.

Miðað við þá félagsmenn FVH sem svöruðu könnuninni er það mikla eignafólk sem Ísland á í dag ekki endilega í hópi viðskipta- og hagfræðinga, eins og margir kynnu að halda. „Þessi stétt virðist ekki vaða í peningum,“ segir Þröstur. „Þetta er ósköp venjulegt fólk.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×