Innlent

Sturla kjörinn forseti þingsins

MYND/Teitur

Sturla Böðvarsson var kjörinn forseti Alþingis í atkvæðagreiðslu á þingfundi sem hófst klukkan hálffjögur. Var hann kjörinn með 54 akvæðum en fjórir þingmenn sátu hjá.

Sturla sagðist myndu leitast við að tryggja sem best samstarf milli þingmanna og þá boðaði hann umræður um það hvernig tryggja mætti að landsbyggðarþingmenn gætu betur sinnt sínum kjósendum í sínum kjördæmum og jafnframt sinnt þingstörfum.

Bauð hann sérstaklega velkomna þá yfir 20 þingmenn sem nýir eru á Alþingi og óskaði nýrri ríkisstjórn velfarnaðar. Meirihluti hennar á þingi væri óvenjulega stór og það myndi setja mark sitt á þingstörfin.

Ekki þurfti að kjósa um varaforseta þingsins þar sem aðeins komu fram sex nöfn. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir úr Samfylkingunni er fyrsti varaforseti, Þuríður Backman úr Vinstri grænum annar, Kjartan Ólafsson úr Sjálfstæðisflokki þriðji varaforseti þingsins, Einar Már Sigurðsson úr Samfylkingunni fjórði, Magnús Stefánsson úr Framsóknarflokknum sá fimmti og Ragnheiður Ríkharðsdóttir úr Sjálfstæðisflokki sá sjötti.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×