Innlent

Tvöfalt fleiri teknir úr umferð ár fyrir lyfjaakstur

Tvöfalt fleiri ökumenn eru teknir úr umferð í hverjum mánuði í ár fyrir akstur undir áhrifum lyfja eða fíkniefna en í fyrra. Að minnsta kosti fjögurra efna lyfjakokteill fannst í ökumanni sem lögreglan á Akranesi stöðvaði í gærkvöld á leið til bæjarins.

Lögreglan á Akranesi fékk í gærkvöldi tilkynningu um einkennilegt aksturslag mannsins í Hvalfjarðargöngunum og ók því til móts við hann. Vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum lyfja og við prófun á lögreglustöð kom í ljós að hann var undir áhrifum amfetamíns, metamfetamíns, ópíumefna og kannabis. Við leit á manninum og bíl hans fannst svo nokkurt magn af amfetamíni og hassi og yfir 50 töflur af róandi lyfjum.

Lögreglu fannst skýringar mannsins þess efnis að efnin hefðu verið til eigin neyslu frekar ótrúlegar en hann gaf þá hagrænu skýringu að ódýrara væri að kaupa meira af efnunum í einu, en minna.

Frá því að ný reglugerð um lyfjaakstur tók gildi í byrjun júní í fyrra, sem segir að menn missi ökuréttindi ef minnsta arða ólöglegra lyfja finnst í þeim, voru 50 ökumenn teknir úr umferð fram að áramótum, eða á sjö mánuðum. Það eru tæplega fjórtán á mánuði.

Fyrstu fimm mánuði þessa árs hafa hins vegar 150 verið teknir fyrir sömu sakir, eða þrjátíu á mánuði. Það er tvöföldun, eða hundrað prósenta aukning, á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×