Innlent

Ólafur á að færa Blaðið í hæstu hæðir

Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, hefur verið ráðinn ritstjóri Blaðsins frá og með næstu mánaðamótum. Fram kemur í tilkynningu frá Árvakri, sem á Blaðið, að ráðningin sé liður í sókn Blaðsins og því markmiði að gera það að mest lesna dagblaði á Íslandi.

Trausti Hafliðason, sem verið hefur ritstjóri Blaðsins frá því í desember, á nú í viðræðum við Árvakur um að gegna hugsanlega öðrum trúnaðarstörfum hjá fyrirtækinu. Hann verður Ólafi innan handar á Blaðinu út júní.

Haft er eftir Ólafi Stephensen í tilkynningunni að verið sé að undirbúa breytingar á efnisvali og efnistökum Blaðsins sem eigi að vekja athygli og auka lestur þess enn.

Þá er haft eftir Einari Sigurðsyni, forstjóra Árvakurs, breytingarnar séu liður í endurskipulagningu og markmiðasetningu félagsins til næstu þriggja ára. „Við höfum sett það markmið að Blaðið verði mest lesna fríblað á Íslandi, að Morgunblaðið festi sig í sessi sem stærsta og mest lesna áskriftarblaðið og að mbl.is styrki stöðu sína enn sem langstærsti frétta- og afþreyingarmiðillinn á netinu," segir Einar.

Ólafur Þ. Stephensen er stjórnmálafræðingur að mennt með MSc-gráðu frá London School of Economics and Political Science. Hann kom fyrst til starfa hjá Árvakri árið 1987 sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Þar starfaði hann m.a. bæði í innlendum og erlendum fréttum og sem leiðarahöfundur.

Ólafur var forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Símanum 1998-2000 og forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins 2000-2001, en sneri þá aftur á Morgunblaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×