Innlent

Blés lífi í tveggja ára stelpu

 

Litlu munaði að tveggja ára telpa drukknaði í sundlauginni að Lágafelli í Mosfellsbæ í gærkvöldi. Sundlaugarvörður blés í hana lífi eftir að hún hafði verið dregin meðvitundarlaus upp úr lauginni þar sem hún kom niður úr rennibraut. Sérfræðingur í forvarnarmálum spyr hvort setja þurfi reglur um aldurstakmörk í allar sundlaugarennibrautir.

Stúlkan var ásamt móður sinni og eldri systur lauginni og var að leika sér í vatnsrennibraut. Hún kom hins vegar ekki úr kafi eftir eina ferðina.

 

Sundlaugargestur kom stúlkunni upp á bakkann, en þá var hún hætt að anda. Starfsmaður íþróttamiðstöðvarinnar hóf strax lífgunartilraunir og stúlkan var við góða líðan þegar hún kom á Barnaspítala Hringsins þaðan sem hún var útskrifuð í morgun.

Jóhanna Gunnarsdóttir, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar segir að full gæsla sé jafnan við sundlaugina og starfsfólkið sé þjálfað í neyðarhjálp. Fjóla Guðjónsdóttir sérfræðingur í forvarnarmálum hjá Sjóvá segir að óhapp af þessu tagi vekji upp spurningar um hvort herða þurfi reglur.

Fjóla segir öryggismál í sundlaugum hafa tekið stakkaskiptum á síðustu árum, en forráðamenn beri einnig ábyrgð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×