Innlent

Lítið borið á geitungum í vor

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/365

Minna hefur borið á geitungum í vor miðað sama tímabil í fyrra og lítið um útköll vegna geitungabúa að sögn meindýraeyða. Þeir segja kuldakastið í byrjun maímánaðar hugsanlega haft áhrif á geitungastofninn hér á landi en alls ekki útilokað að hann muni taka við sér seinna í sumar.

„Undir venjulegum kringumstæðum ætti að vera meira um geitunga á þessum árstíma," sagði Smári Sveinsson, meindýraeyðir hjá Vörnum og eftirlit, í samtali við Vísi. „Það er ósköp lítið um útköll vegna geitungabúa."

Smári segir líklegt að kuldakastið í byrjun maímánaðar skýri að einhverju leyti stöðuna en ómögulegt sé vita hvaða langtíma afleiðingar þetta hefur. „Þeir koma oft seinna þegar vorið er kalt. Hins vegar gæti þeim fjölgað hratt þegar líða tekur á sumar. Það er ómögulegt að spá fyrir nokkru þótt þeir séu seinna á ferðinni en venjulega."

Í sama streng tekur Róbert Ólafsson, meindýraeyðir hjá Varandi, í samtali við Vísi. Hann bendir á að fyrir tveimur árum hafi ástandið verið svipað og nú. „Svo kom holskefla seinna um sumarið þegar allir voru hættir að hugsa um þetta. Þess vegna segir ástandið núna ekkert um komandi sumar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×