Innlent

Útgerðir vilja ekki styðja sjómannadaginn á Akureyri

Engin opinber hátíðarhöld verða á sjómannadaginn á Akureyri þar sem útgerðirnar í bænum vilja ekki lengur leggja neitt af mörkum til að svo megi verða.

Þetta segir segir Konráð Alfreðsson formaður sjómannafélagsins við Eyjafjörð. Einnig að það sé sorglegt að útgerðirnar sjái sér ekki lengur fært að styrkja sjómenn í einum stærsta útgerðarbæ landsins um það lítilræði sem þurfi til að geta haldið daginn hátíðlegan.

Við athugun kemur í ljós að engin föst regla ríkir um þetta á landsbyggðinni, en sumstaðar styðja útgerðir vel við hátíðarhöldin eins og til dæmis í Grindavík.

Viðmælendur fréttastofunnar í Sjómannadagsráðum á nokkrum stöðum á landinu sögðust í morgun greina það hjá sjómönnum að þeim virtist sem sumum útgerðum, einkum stórútgerðum, væri í mun að dagurinn sem slíkur liði undir lok því skylda er að öll skip séu í höfn á sjómannadaginn nema að þau séu að veiðum utan lögsögunnar.

Útgerðum stórra skipa þætti þetta raska útgerðarmynstrinu og vildu gjarnan sjá þessa hefð deyja hægt og hljótt, eins og einn viðmælandinn orðaði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×