Innlent

Alþingi kemur saman á morgun

MYND/Pjetur

Alþingi kemur saman á morgun í fyrsta skipti eftir kosningar. Að venju hefst þingsetning með guðþjónustu í Dómkirkjunni klukkan 13.30 en að henni lokinni ganga alþingismenn fylktu liði ásamt forseta Íslands, biskupi og ráðherrum til þinghússins. Þar mun forseti svo setja 134. löggjafarþing Íslendinga.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, mun taka við fundarstjórn af forseta eftir þingsetningu sem starfsaldursforseti. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til klukkan 15.30 en þá verða kjörbréf afgreidd, varamenn taka sæti og drengskaparheit undirrituð.

Starfsaldursforseti stjórnar síðan kjöri forseta Alþingis, kosnir verða varaforsetar og kosið í fastanefndir Alþingis og til Íslandsdeilda þeirra alþjóðasamtaka sem Alþingi á aðild að. Klukkan tíu mínútur fyrir átta um kvöldi flytur forsætisráðherra stefnuræðu ríkisstjórnarinnar og eftir hana taka við umræður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×