Innlent

Ólga hjá eldri borgurum

Mikil ólga er innan Landssambands eldri borgara og kemur til uppgjörs á landsþingi sambandsins um næstu helgi.

Þar verður kosið á milli núverandi formanns og fromannsefnis uppstillinganefndar. Þung orð féllu á fundi framkvæmdastjórnar Landsambandsins í dag.

Framkvæmdastjórnin sat átakafundinn í dag þar sem ásakanir gengu á víxl og þung orð féllu samkvæmt heimildum Stöðvar 2. Ólafur Ólafsson, núverandi formaður er afar ósáttur við Borgþór Kjærnested, framkvæmdastjóra félagsins og sakar hann um að reyna að sölsa félagið undir sig. Borgþór er á móti afar ósáttur við Ólaf vegna tilvitnana í bréf sem Borgþór sendi einum kjörnefndarmanna þar sem hann kvartaði yfir of mikilli hörku Ólafs.

Svo mun Ólafur hafa gefið það upp í vetur að hann myndi jafnvel draga sig í hlé og í því ljósi samþykkti Helgi Hjálmsson, núverandi varaformaður að vera formannsefni á lista uppstillinganefndar. Helgi segir að fundurinn í dag hafi verið þungur og sér þyki leiðinleg sú óþægilega staða sem upp sé komin. Ber hann blak af Borþóri og telur ásakanir Ólafs gagnvart honum ekki á rökum reistar. Ólafur hefur sakað Borgþór um óheilindi.

Það kraumar undir og ljóst að á landsþingi um næstu helgi verður uppgjör - þegar sú sérstaka staða er uppi að kosið er á milli sitjandi formanns og formannsefnis uppstillinganefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×