Innlent

Segir Ríkissjónvarpið hóta viðmælendum

MYND/AB

Ríkisjónvarpið beitir hótunum til að koma í veg fyrir að viðmælendur fari í viðtal í Íslandi í dag í stað Kastljóss. Þetta kemur fram á bloggsíðu Steingríms Sævarrs Ólafssonar, umsjónarmanns Íslands í dag. Hann segir Ríkissjónvarpið hafa hótað að hætta við að kaupa kvikmynd af manni sem var búinn að lofa að mæta í viðtal í Íslandi í dag.

Á heimasíðu Steingríms Sævarrs kemur fram að í fjölmörg skipti hafi viðmælendur komið í Ísland í dag og kvartað undan hótunum starfsfólks Kastljóss. Hann segir umsjónarmenn Kastljóss hafa hringt í viðmælendur og óskað eftir þeim í viðtal. Hafi viðmælendur hins vegar verið búnir að lofa sér í viðtal í Íslandi í dag sé þeim hótað að þeir fái ekki að koma í Kastljósið í framtíðinni.

Nýjasta dæmið að sögn Steingríms er frá því í dag. Þá hafi kvikmyndagerðarmaður bókað sig í viðtal í Íslandi í dag. Stuttu síðar hafi Kastljósið hringt í manninn og óskað eftir honum í viðtal. Þegar hann svo neitaði hafi kaup Ríkissjónvarpsins á mynd hans og myndum hans í framtíðinni orðið að umræðuefni eins og segir á bloggsíðu Steingríms.

Steingrímur segir þetta vera ámælisverð vinnubrögð hjá ríkisstofnun. Þá gagnrýnir hann það að ritstjóri Kastljóss sé jafnframt dagskrástjóri Ríkissjónvarpsins og sjái þar af leiðandi um kaup á innlendu og erlendu efni.

Ekki náðist í Þórhall Gunnarsson, ristjóra Kastljóss, né Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóra.

Blogg Steingríms má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×