Handbolti

Alexander og Snorri Steinn með stórleik

Alexander Petersson hefur sannað sig sem einn besti hornarmaður heims í ár.
Alexander Petersson hefur sannað sig sem einn besti hornarmaður heims í ár.

Alexander Petersson skoraði níu mörk þegar lið hans Grosswallstadt vann stórsigur á Wilhelmshavener í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 31-19. Snorri Steinn Guðjónsson gerði enn betur og skoraði 10 mörk þegar Minden tapaði fyrir TuS N-Lübbecke, 31-30, og þá lagði Íslendingaliðið Gummersbach lið Balingen af velli, 38-28.

Gylfi Gylfason skoraði fimm mörk fyrir Wilhelmshavener en liðið er í 11. sæti deildarinnar með 22 stig. Grosswallstad er hins vegar í 9. sæti með 35 stig eftir sigurinn í dag. Sigur Lübbecke á Minden gefur liðinu von um að halda sæti sínu í deildinni en liðið er með 13 stig og þarf þrjú til viðbótar til að komast úr fallsæti. Minden er með 17 stig í 14. sæti.

Þess má geta að Alexander skoraði tvö af mörkum sínum úr vítaköstum en fimm mörk Snorra komu af vítalínunni.

Íslendingarnir hjá Gummersbach komu mismikið við sögu í kvöld. Róbert Gunnarsson var þeirra markahæstur með sex mörk en Guðjón Valur Sigurðsson hafði óvenju hægt um sig og skoraði aðeins þrjú mörk.

Sverre Jakobsson lét finna fyrir sér eins og venjulega í vörninni og fékk að líta rauða spjaldið í síðari hálfleik eftir að hafa hlotið þrjár brottvísanir. Gummersbach er með 48 stig í 4. sæti deildarinnar, stigi á eftir Flensburg.

Hamborg tapaði fyrir Kronau-Östringen á útivelli, 30-28, og er þar með ennþá tveimur stigum á eftir Kiel á toppnum. Bæði lið hafa spilað 32 leiki og eiga því eftir að spila fjóra leiki á tímabilinu. Kiel stendur því með pálmann í höndunum, enda með mun betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×