Innlent

Aðgerðir Sea Shepherd ekki líklegar til árangurs

Hvalur 9 heldur út til veiða í fyrrahaust.
Hvalur 9 heldur út til veiða í fyrrahaust. MYND/GVA

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent Sea Sherpherd samtökunum bréf og ráðið þeim frá því að koma hingað til lands til að reyna að stöðva hvalveiðar í sumar. Í bréfinu segir að slíkar aðgerðir séu ekki líklegar til árangurs og muni aðeins styrkja yfirvöld í að reyna halda lífi í deyjandi atvinnugrein.

Náttúruverndarsamtökin benda á að ólíklegt sé að langreyðar verði veiddar í sumar þar sem ekki sé markaður fyrir slíkar afurðir. Þá verði vísindaveiðum Hafrannsóknastofununarinnar að mestu lokið við landið þegar skip Sea Shepherd, Farley Mowat, kemur til landsins.

Telja Náttúruverndarsamtökin enn fremur að aðgerðir Sea Shepherd hér á landi árið 1986, þegar tveimur hvalveiðibátum var sökkt í Reykjavíkurhöfn, hafi framlengt líf atvinnugreinarinnar því Íslendingar hafi verið andvígir þeim aðgerðum.

Segjast samtökin hafa barist með dýraverndunarsamtökunum International Fund for Animal Welfare (IFAW) á undanförnum árum gegn hvalveiðunum hér við land ásamt því að kynna hvalaskoðun hér á landi. Sú skoðun njóti vaxandi fylgis hér á landi að ekkert sé upp úr hvalveiðunum að hafa.

Íslenska þjóðin geti stöðvað veiðarnar í gegnum þingið og ríkisstjórn landsins. Þess vegna muni aðgerðir Sea Shepherd í sumar hafa þveröfug áhrif á þjóðina. Hvorki íslenska þjóðin né Náttúruverndarsamtök Íslands styðji þær aðgerðir sem Sea Shepherd menn hafi boðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×