Innlent

Forsætisráðherra kominn með stjórnarmyndunarumboð

Fundi Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands er lokið. Geir fékk lausn fyrir núverandi ríkisstjórn. Jafnframt afhenti forsetinn honum umboð til þess að mynda nýja meirihlutastjórn með Samfylkingunni. Forsetinn telur æskilegt að það taki viku til tíu daga til að fá niðurstöðu í málið.

Ólafur Ragnar sagði að hann myndi ekki ræða við forystumenn annarra flokka vegna málsins. Geir hefði greint honum frá viðræðum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og hann teldi út frá þeim upplýsingum að málið lægi nokkuð ljóst fyrir.

Ólafur Ragnar sagði markmið forsetaembættisins að stuðla að því að flokkarnir gætu rætt saman á eigin forsendum en ekki væri endilega nauðsyn til þess að fara í hringferð á milli forystumanna flokkanna.

Geir H. Haarde sagði eftir fundinn að ekki lægi fyrir hvenær nákvæmlega fyrsti stjórnarmyndunarfundur hans og Ingibjargar Sólrúnar færi fram en það yrði þó í eftirmiðdaginn.

Geir átti í morgun fund með þingflokki Sjálfstæðisflokksins þar sem flokkurinn endurnýjaði umboð hans til stjórnarmyndunarviðræðna. Aðspurður sagði hann að vel væri tekið í samstarf við Samfylkinguna innan þingflokksins.

Geir sagðist aðspurður ekki vita hversu langan tíma viðræður Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar myndu taka en vonaði að það yrðu ekki nema nokkrir dagar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×