Erlent

Áhrif lækkunarinnar á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum mátti finna á Íslandi

Hlutabréf héldu áfram að lækka í Asíu og í Evrópu í morgun, annan daginn í röð, í kjölfar mikillar lækkunar á kínverska hlutabréfamarkaðinum í fyrradag. Áhrif lækkunarinnar mátti merkja hér á Íslandi annan daginn í röð.

Hlutabréfamarkaðir í Asíu héldu áfram að lækka allt frá þremur prósentum niður í níu prósent . Kínverski hlutabréfamarkaðurinn var sá eini í Asíu sem náði sér á strik í dag eftir tæplega 9% lækkun í fyrradag en sú lækkun var sú mesta þar í landi í áratug. Lækkun á hlutabréfamörkuðum hélt áfram í Bandaríkjunum, þó svo að Dow Jones vísitalan sýndi reyndar merki um bata.

Hlutabréfamarkaðir á Norðurlöndunum lækkuðu og hér á Íslandi féllu hlutabréf í verði annan daginn í röð. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 4% á tveimur dögum og íslenska krónan hefur veikst um 1,8% síðustu tvo daga sem rekja má til þessarar alþjóðlegu lækkunar en hún styrktist um hálft prósent í dag.

Þessi heimslækkun á hlutabréfamörkuðum annan daginn í röð er talin eiga upptök sín í orðrómi um ofmat hlutabréfa í Kína og því að kínversk stjórnvöld ætluðu að aftra því að áhættufyrirtæki fengju bankalán. Lækkunin á bandarískum mörkuðum má meðal annars rekja til ummæla Alan Greenspan, Seðlabankastjóra Bandaríkjanna, þar sem hann lýsti áhyggjum af niðursveiflu í kínverskum og bandarískum efnahag.

Talsmenn Hvíta húsið neitaði að tjá sig um lækkanir á bandaríska hlutabréfamarkaðinum en sögðu þó að grunnurinn væri sterkur.

Hér heima hefur lækkunin á alþjóðamarkaðinum haft hvað mest áhrif á fjármálafyrirtæki enda hafa þau hækkað mest undanfarna mánuði.

Páll Harðarson, forstöðumaður rekstarsviðs Kauphallar Íslands sagði í samtali við Fréttastofu að segja megi að það sé dæmi um þroskamerki íslenska hlutabréfamarkaðarins þegar viðbrögð hér á landi séu viðbrögð við því sem gerist úti í heimi. Markaðurinn hér heima hafi þrátt fyrir allt farið upp um tæp 14% % það sem af er árinu.

Sérfræðingar hér á landi og erlendis tala um leiðréttingu þar sem talsverðar hækkanir hafi verið á mörkuðum víða um heim og bjartsýni hafi verið ríkjandi. Svo koma efasemdir um innistæðu þessara hækkana og þá leiðrétti markaðurinn sig. Til að mynda hafi kínverski markaðurinn hækkað um 130% á einu ári. Sérfræðingar spá því reyndar að kínverski hlutabréfamarkaðurinn eigi eftir að jafna sig og forsætisráðherra Ástralíu, John Howard reyndi að draga úr áhyggjum manna með því að minna á að miðað við mikin og hraðan efnahagsvöxt í Kína, hafi mátt búast við sveiflu af þessu tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×