Innlent

Tollar á ónegld dekk verði felld niður

Niðurfelling tolla á ónegld dekk og aukin kynning á þeim er meðal þess sem starfshópur umhverfisráðuneytisins leggur til sem mögulegar leiðir til úrbóta vegna svifryksmengurnar á höfuðborgarsvæðinu. Tillögurnar voru kynntar á blaðamannafundi umhverfisráðherra á Akureyri í dag.

Meðal þess sem lagt er til í skýrslu starfshópsins er skylda til að setja sótsíur í öll stærri farartæki og vinnuvélar með díselvélar, að sveitarfélög og ríki noti rykbindiefni og þvoi götur og hönnun niðurfalla eða umferðarmannvirkja verði breytt. Þá er lagt til að hafnar verði reglulegar mælingar á svifryki á Akureyri. Auk þess er bent á að meiri árangri megi ná með því að efla almenningssamgöngur svo og örva hjólreiðar og gangandi umferð með bættu stígakerfi.

Fram kemur í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu að skýrslan hafi verið rædd í ríkisstjórn og í kjölfarið hafi umhverfisráðuneytið hafið viðræður við samgönguráðuneytið og fjármálaráðuneytið um að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd.

Umhverfisráðherra hafi lýst yfir mikilvægi almenningssamgangna í þéttbýli og þess að þær verði raunhæfur valkostur sem dragi úr heildarumferð. Sérstaklega beri að fagna ákvörðun Akureyringa um að fella niður fargjöld um síðustu áramót og þeim árangri sem hún hefur skilað, en farþegum Strætisvagna Akureyrar hefur fjölgað um 60 prósent síðan þá. Slík aðgerð sé til þess fallin að draga úr heildarumferð og þar af leiðandi afar jákvæð fyrir loftgæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×