Innlent

Áhöfn TF-SIF má ekki ræða tildrög slyssins

Áhöfnin á TF SIF má ekki ræða við fjölmiðla þar sem rannsókn stendur yfir á orsökum þess að þyrlan brotlenti í sjónum skammt undan Straumsvík. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ræddi við áhöfnina í gær og sagði hana hafa staðið sig með prýði. Þyrlan var á æfingu með björgunarsveit Hafnarfjarðar þegar þegar hún missti skyndilega afl.

Slysið varð laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi. Rætt var um í gær að þyrlan hefði misst afl í lítilli hæð en Landhelgisgæslan vildi ekki staðfesta það í dag enda ekki leyfilegt sökum rannsóknarinnar. Áhöfnin skaut út neyðarflotum og lenti því mjúklega á sjónum. Þar hvolfdi henni hins vegar. Fjórir menn voru um borð, þeir Sigurður Heiðar Wium flugstjóri, Jens Þór Sigurðsson flugmaður, Torben J. Lund stýrimaður og Daníel Hjaltason flugvirki. Mikil mildi var að ekki var verið að hífa neinn um borð í þyrluna þegar óhappið varð. Björgunarskipið Einar Sigurjónsson, frá björgunarsveit Hafnarfjarðar, var þar skammt frá og bjargaði þeim upp úr sjónum.

Fjöldi fólks úr Hafnarfirði fylgdist með frá ströndinni allt frá Hvaleyrarholti til Straumsvíkur. Lögreglan þurfti að biðja fólk frá að hverfa til að það torveldaði ekki aðgerðir. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar flugu yfir svæðið til að kanna aðstæður í gærkvöldi og tóku á móti áhöfninni þegar komið var með hana að landi.

TF Sif var tryggð að fullu en talið er að verðmæti hennar nemi einum milljarði króna.

Þyrlan var dregin til Hafnarfjarðar
Áhöfnin og Georg Lárusson, forstjori Landhelgisgæslunnar eftir komuna í land í Straumsvíkurhöfn.MYND/Vísir.is

Björgunarstörfin í nótt fóru þannig fram að byrjað var á að setja lyftibelgi á vélina, segir í tilynningu frá Landhelgisgæslunni. Hver belgur ber 300 kg. og voru settir sex slíkir belgir á vélina til að tryggja að hún flyti. Að því loknu var hljóðritinn tekinn úr vélinni og flakið myndað að beiðni Rannsóknarnefndar flugslysa. Þar næst fóru kafarar niður undir vélina og tóku þyrluspaðana af henni og komu böndum á ásinn sem heldur spöðunum (rotorhead -þyrilkollur). Þá var kominn prammi með krana að vélinni og var hann notaður til að hífa vélina upp til að rétta hana af. Það tókst með ágætum. Ákveðið var að taka vélina ekki um borð í prammann til að forðast skemmdir. Þar næst var vélin dregin upp að bryggju í Hafnarfirði. Þar var hún hífð upp á bíl og flutt í húsnæði á vegum Rannsóknarnefndar flugslysa.

Landhelgisgæslan segist vilja koma á framfæri þakklæti til þeirra sem tóku þátt í björgunaraðgerðum en það starf hafi gengið með eindæmum vel.

Meðal þeirra sem komu að björgunaraðgerðum ásamt köfurum og öðrum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar voru kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, björgunarsveitarmenn frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, lögreglan og Köfunarþjónusta Árna Kópssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×