Innlent

Steinunn Valdís Óskarsdóttir hættir í borgarstjórn

Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrrverandi borgarstjóri og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hefur sagt af sér sem borgarfulltrúi og ætlar að alfarið að helga sig þingmennsku.

Steinunn Valdís hefur verið borgarfulltrúi í þrettán ár. Hún varð þriðja konan til að gegna embætti borgarstjóra, en áður hafði Auður Auðuns verið borgarstjóri fyrir Sjálfstæðisflokk og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir Reykjavíkurlistann. Steinunn Valdís varð borgarstjóri eftir að Þórólfur Árnason sagði af sér embætti borgarstjóra vegna fyrri starfa sinna hjá Olíufélagi Íslands, sem sakað var um verðsamráð við hin stóru olíufélögin.

Í Alþingiskosningunum í vor var Steinunn Valdís kjörin á Alþingi. Hún sagði fréttastofunni í morgun að hún teldi störf þingmanns og borgarfulltrúa bæði það viðamikil, að það samræmdist ekki í hennar huga að gegna báðum störfunum samtímis.

Sigrún Elsa Smáradóttir tekur sæti í borgarstjórn í hennar stað, en Oddný Sturludóttir, sem er ofar en hún á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, hafði þegar tekið sæti í borgarstjórn til að leysa af Stefán Jón Hafstein sem sinnir nú hjálparstarfi í útlöndum.

Síðasta verk Steinunnar Valdísar í borgarstjórn verður að leggja fram tillögu á fundi hennar á þriðjudag um að gerð verði launakönnun hjá stofnunum borgarinnar, til að kanna mun á launum karla og kvenna og ef sú könnun leiði í ljós óeðlilegan launamun, verði gripið til aðgerða til að leiðrétta hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×