Innlent

Framsóknarmenn gerðu sömu mistök og Alþýðuflokkurinn

MYND/VG

Framsóknarflokkurinn hefði strax átt að biðjast lausnar úr ríkisstjórninni eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir og koma með því umboði til stjórnarmyndur í hendur Samfylkingarinnar. Þetta kom fram í máli Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og formanns Alþýðuflokksins, á útvarpi Sögu í morgun. Hann segir sjálfstæðimenn orðna sérfræðinga í undirhyggju.

Jón sagði Framsóknarflokkinn hafa gengið í gegnum það sama nú í samskiptum sínum við Sjálfstæðisflokkinn eins og Alþýðuflokkurinn árið 1995. Þá hélt stjórnin velli með eins manns meirihluta en sjálfstæðismenn ákváðu ekki að framlengja stjórnarsamstarfinu og sömdu þess í stað við Framsóknarflokkinn. Jón sagði það hafa verið mistök af hans hálfu að hafa ekki strax beðist lausnar fyrir sinn flokk á sínum tíma í stað þess að láta Sjálfstæðismenn blekkja sig.

Jón telur framsóknarmenn hafa gert sömu mistök nú. Réttast hefði verið fyrir Jón Sigurðsson að biðjast strax lausnar og koma með því umboði til stjórnarmyndunar í hendur Samfylkingarinnar. Þannig hefði gefist tækifæri til myndunar vinstristjórnar.

Þá gagnrýnir Jón Baldvin formann Framsóknarflokksins og telur hann hafa gert mistök með því að aðskilja sig ekki frekar frá Sjálfstæðisflokknum eftir að það lá fyrir að ekki yrði framhald á stjórnarsamstarfinu. Með því hafi framsóknarmönnum mistekist að skapa sér afgerandi stöðu sem stjórnarandstöðuflokkur.

Jón sagði það ennfremur athyglisvert hversu sjálfstæðismenn eru orðnir miklir sérfræðingar í undirhyggju.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×