Innlent

Geysir leggur í vesturvíking

Í Sonoma-sýslu í norðanverðri Kaliforníu í Bandaríkjunum er að finna á einum stað flestar jarðhitavirkjanir í heimi, en þær eru 21 talsins. Geysir Green Energy hefur fjárfest í kanadísku fyrirtæki sem ætlar að koma upp virkjun á svæðinu.
Í Sonoma-sýslu í norðanverðri Kaliforníu í Bandaríkjunum er að finna á einum stað flestar jarðhitavirkjanir í heimi, en þær eru 21 talsins. Geysir Green Energy hefur fjárfest í kanadísku fyrirtæki sem ætlar að koma upp virkjun á svæðinu. Mynd/innanríkirráðuneyti BNA

Fjárfestingarfélagið Geysir Green Energy kaupir um fimmtungshlut í kanadíska jarðhitafyrirtækinu Western GeoPower Corporation (WGP) á í kringum 600 milljónir króna. Greint var frá samningi þar að lútandi í gær, en verið er að leggja lokahönd á kaupin.



Geysir kaupir liðlega 40 milljónir nýja hluti í félaginu. Þegar hefur verið gengið frá kaupum á 25 milljónum hluta og svo er tekinn yfir kaupréttur að rest. Verðið hleypur á bilinu 25 til 29 sent á hlut. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, tekur í kjölfarið sæti í stjórn WGP. „Við verðum þarna virkur hluthafi og förum inn til að hafa áhrif á bæði framgang og verkefni. Við lítum á okkur sem áhrifafjárfesti."

Ásgeir segir kaupin falla að áformum Geysis um virka þátttöku á stærsta orkumarkaði heims, sem sé í Bandaríkjunum. „Við hlökkum til að taka þátt í að efla og styrkja Western GeoPower til þátttöku og þróunar á frekari verkefnum vestanhafs," segir hann og bætir við að kaupin séu hluti af stærri viðfangsefnum og meiri. „Í vesturhluta Bandaríkjanna er töluvert mikið fram undan í jarðhitanum og við ætlum okkur eitthvert hlutverk þar." Að auki er Geysir stærsti hluthafinn í Enex sem einnig er með í gangi verkefni í Bandaríkjunum. „Við erum því með tvær tengingar inn á þennan markað núna."



Ásgeir Margeirsson Forstjóri Geysis Green Energy segir kaupin í kanadíska fyrirtækinu falla vel að áformum um þátttöku á orkumarkaði í Bandaríkjunum. Fréttablaðið/GVA
Hlutafjáraukning WGP er sögð liður í að fjármagna jarðvarmavirkjun sem fyrirtækið vinnur nú að á Geysissvæðinu í Kaliforníu, en það er jarðhitasvæði í Sonoma-sýslu í ríkinu norðanverðu. Kenneth MacLeod, forstjóri WGP, segir nú að mestu lokið fjármögnun á borun og byggingu virkjunarinnar. Hann segir sérstakan ávinning að fá Geysi Green Energy að félaginu, enda fylgi í kaupunum þekking og reynsla. „Samstarf mun styrkja okkur í þeim verkefnum sem við vinnum að," er eftir honum haft.

Höfuðstöðvar Western GeoPower eru í Vancouver í Kanada, en fyrirtækið er skráð á TSX-markaðinn í Toronto. Í tilkynningu Geysis kemur fram að Western GeoPower einbeiti sér að vinnslu endurnýtanlegrar jarðvarmaorku „til að mæta ört vaxandi þörf fyrir raforku á vesturströnd Bandaríkjanna og Kanada," en vinni nú að tveimur meginverkefnum á því sviði.

Geysir Green Energy er fjárfestingarfélag um sjálfbæra orkuvinnslu sem stofnað var af FL Group, Glitni og VGK-Hönnun í byrjun þessa árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×