Innlent

Óskiljanlegar skýringar dómsmálaráðuneytisins

Brynjar Níelsson einn umsækjanda um embætti ríkissaksóknara segist hafa fengið óskiljanlegar skýringar frá dómsmálaráðuneytinu um það hvers vegna ráðningu í embættið var frestað. Embættið var auglýst til umsóknar fyrir kosningar, en ákveðið var eftir þær að Bogi Nilsson ríkisaksóknari ynni til áramóta.



Embætti ríkissaksóknara var auglýst til umsóknar í apríl síðastliðnum. Fimm sóttu um embættið og var Brynjar Nilsson hæstaréttarlögmaður einn þeirra. Eftir kosningar var starfslokum Boga Nilssonar ríkissaksóknara frestað til áramóta. Brynjar Níelsson krafðist rökstuðnings ráðuneytisins.



Í svari ráðuneytisins segir : „Samtöl ráðherra og ráðuneytisstjóra við umsækjendur leiddu í ljós samdóma álit þeirra um, að embætti ríkissaksóknara sæti um þessar mundir undir ámæli, þótt ekki væri það réttmætt, auk þess sem óvissa væri um framtíðareðli embættisins, enda væri efni ákvæða um ákæruvaldið í frumvarpi til laga um meðferð sakamála enn óljóst."

Brynjar Níelsson segir ákvörðun dómsmálaráðherra óvenjulega og í öllu falli óeðlilega. Þá segir hann rökstuðning ráðuneytisins óskiljanlegan. Allt sem í honum hafi komið fram hafi legið fyrir áður en embætti ríkissaksóknara var auglýst.

Hann segir einstakar ákvarðanir saksóknara hafi verið gagnrýndar að undanförnu til að mynda í Baugsmálinu. Tveir umsækjendur um embættið, Sigríður Friðjónsdóttir og Egill Stephensen hafa einnig óskað eftir rökstuðningi ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×