„Þegar ég steig upp úr bílnum var ég algjörlega miður mín því ég hafði gert mín fyrstu mistök á árinu," sagði Lewis Hamilton við ITV-sjónvarpsstöðina eftir keppnina í morgun.
Hamilton féll úr leik í keppninni í Kína í morgun en hefur enn fjögurra stiga forskot á félaga sinn hjá McLaren, Fernando Alonso, fyrir lokakeppnina sem fer fram í Brasilíu eftir tvær vikur.
„Að gera slík mistök þegar ég er á leiðinni inn á viðgerðarsvæðið er eitthvað sem ég er ekki vanur að gera," sagði Hamilton en hann missti bílinn út á möl í fráreininni þar sem bíllinn sat fastur.
„Það er ekki hægt að fara í gegnum lífið án þess að gera mistök. En ég hef náð mér af þessu og hlakka til keppninnar í Brasilíu. Liðið mun leggja hart að sér til að ganga úr skugga um að bíllinn verði nógu fljótur. Við eigum líka enn einhver stig í pokahorninu."
Hann sagði þó að hann gat ekkert gert til að koma í veg fyrir að bíll hans rynni út í mölina.
„Við vorum búnir að standa okkur vel í keppninni og ég veit ekki hvort það var rigningin sem orsakaði þetta eða ekki. Dekkin versnuðu í sífellu og það var nánast hægt að sjá í gegnum gúmmíið. Þegar ég ók að viðgerðarsvæðinu var það eins og að lenda á svelli. Ég gat ekkert gert."
Hann sér eftir þessu öllu saman og hrósaði liðinu fyrir góða frammistöðu.
„Það er þó enn ein keppni eftir og við getum enn unnið þetta."