Innlent

Félagshyggjan er komin við völd í Reykjavík

Oddný Sturludóttir er formaður menntaráðs.
Oddný Sturludóttir er formaður menntaráðs. Mynd/ Stefán
Oddný Sturludóttir segir að sú aðgerð nýja borgarstjórnarmeirihlutans um að leggja fram tæplega 800 milljónir í að leysa manneklu á leikskólum, í grunnskólum, á frístundaheimilum og í þjónustu við aldraða í borginni sé viðleitni til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem birtast í ályktun skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkur. Skólastjórar kölluðu í dag eftir viðbrögðum menntaráðs við þeim vanda sem nú ríkir þegar ekki er hægt að halda uppi lögboðinni kennslu vegna manneklu.

Í tillögum nýja meirihlutans er meðal annars gert ráð fyrir að hlunnindi starfsmanna borgarinnar verði samræmd frá og með áramótum. Tvö hundruð milljónum verði veitt á þessu skólaári til að umbuna starfsmönnum á stofnunum sem glíma við undirmönnun og að greiða starfsmönnum skóla og hjúkrunarheimila sem skylt er að matast með nemendum og öldruðum hærri laun.

Oddný segir að þó hún vonist til þess að þessar aðgerðir skili einhverju þá viti hún að þær séu engin töfralausn. Hún segir að fljótlega muni borgaryfirvöld funda með þeim stéttum sem þarna eigi hlut að máli og ræða framtíðina. Samningar verði lausirá næsta ári og nýi meirihlutinn vilji að samningaviðræður um kjör þessara stétta gangi friðsamlega fyrir sig. Oddný segir að félagshyggjan sé komin við völd í Reykjavík. Það þýði að nú verði lögð sérstök áhersla á kjör starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þetta séu þær stéttir sem vinni mikilvægustu störfin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×