Innlent

Geiri á Goldfinger í Íslandi í dag

Ásgeir Davíðsson eigandi Goldfinger segir grein um nektardansstaðinn í tímaritinu Ísafold vera harmleik. Í greininni voru ávirðingar þess efnis að mansal væri stundað þar innan dyra. Ásgeir sagðist ekki viss um hvort hann myndi kæra blaðið en taldi það ólíklegt. Hann ræddi málið við Sölva Tryggvason í Íslandi í dag.

Í tímaritinu er birt mynd af Gunnari Birgissini, bæjarstjóra í Kópavogi inni á nektarstaðnum. Ásgeir sagðist hafa talað við Gunnar eftir að blaðið kom út. Ásgeir segir að á myndinni sé Gunnar ásamt hjónum. Það sé því rangt að myndin sýni Gunnar með tveimur dansstúlkum. Ásgeir sagði einnig að hann og Gunnar væru ágætis vinir en að það væri rangt að bæjarstjórinn væri fastakúnni.

„Mér finnst þetta vera hálfgerður harmleikur," sagði Ásgeir. Hann segir að umfjöllun Ísafoldar sé runnin undan rifjum fyrrum starfsmanns sem hann hafi rekið. Hann sagði að sér vitanlega hefði vændi aldrei verið stundað á staðnum. Þó sagði hann mál af því tagi hafa komið upp en að þau hefðu verið leyst innanhúss. Hann sagði að ef kæmi á daginn að vændi hafi verið stundað inni á staðnum þá væri það að minnsta kosti ekki á hans vegum.

Ásgeir viðurkenndi að hann hefði þá vinnureglu að starfsstúlkum hans væri bannað að fara ferða sinna í átta klukkutíma eftir að vakt þeirra lyki á staðnum. Hann sagði þetta gert til vegna þess að stúlkurnar væru drukknar að lokinni vakt og því þyrftu þær að sofa það úr sér.

Að lokum sagði Ásgeir að ritstjóri Ísafoldar hefði viðurkennt fyrir sér að villur væri í greininni og sagðist hann hafa fengið tilboð frá ritstjóranum um að standa fyrir máli sínu í næsta tölublaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×