Innlent

Ísafold fjarlægt úr verslunum Kaupáss

Kaupás lét fjarlægja tímaritið Ísafold úr öllum verslunum sínum í dag. Forráðamenn blaðsins segja það tengjast umfjöllun Ísafoldar um aðkomu bæjarstjóranns í Kópavogi að næturklúbbnum Goldfinger. Forstjóri Kaupáss segir þetta viðskiptaákvörðun og hótar því að taka öll blöð Birtings úr sölu. Bæjarstjórinn segir lygar og rangfærslur koma fram í grein Ísafoldar.

Það var klukkan sex í gærkvöldi sem tölvupóstur barst frá Kaupási til Birtings, útgáfufélags Ísafoldar. Þar var tilkynnt að Kaupásverslanirnar - sem eru Nóatún, Krónan og 11-11 - væru hættar að selja Ísafold og starfsmenn Birtings beðnir að sækja blöðin sem fóru í dreifingu í gær. Ritstjóri blaðsins og ábyrgðarmaður, feðgarnir Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, sendu frá sér tilkynningu í morgun þar sem þeir segja áhrifamenn ítrekað hafa reynt með þrýstingi að stöðva útgáfu blaðsins vegna umfjöllunar um mansal í Kópavogi og aðkomu bæjarstjórans í Kópavogi að næturklúbbnum Goldfinger.

Þá segir Reynir að áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins hafi reynt að beita ritstjórn þrýstingi til að draga umfjöllunina til baka. Þegar það hafi ekki gengið beiti stærsta fyrirtækið í Kópavogi bolabrögðum.

Í tilkynningunni segir ennfremur að þeir fordæmi þá aðför að prentfrelsi sem felist í aðgerðum verslunarkeðjunnar.

Aðstandendur blaðsins stóðu í dag fyrir utan Nóatún í Furugrund og seldu blaðið í lausasölu.

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagðist í samtali við fréttastofu ekki vilja tjá sig um svo ómerkilega grein. Hann sagði þó að lygar og rangfærslur væru í greininni og það væri alvarlegt mál að ræna menn mannorðinu á þennan hátt. Þá sagði hann með ólíkindum að Baugur group gæfi út svona tímarit.

Lögfræðingar Birtíngs fara nú yfir málið en að sögn framkvæmdstjóra félagsins er Kaupás að brjóta samninga sem eru með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Kaupáss, sagði í samtali við fréttastofu í dag út í hött að tengja ákvörðun fyrirtækisins við grein um mansal í Kópavogi. Hann vildi ekki koma í viðtal en sagði að Kaupás hefði aldrei viljað selja Ísafold og hafi samningur þess efnis verið undirritaður við Birting þá hafi starfsmaður gert það í heimildarleysi. Ákvörðunin væri viðskiptalegs eðlis, Ísafold væri hilluvermir og Kaupás gæti nýtt sitt hillupláss undir vörur sem seldust betur. Aðspurður hvort önnur tímarit Birtings væru seld í verslunum Kaupáss, sagðist Jóni Helga, ekki vera kunnugt um það en taldi ekki ósennilegt að þeim yrði öllum hent út haldi þetta moldviðri áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×