Innlent

Lét af störfum eftir 37 ár í lögreglunni

Ólafur Helgi Kjartansson þakkar Þresti Brynjólfssyni fyrir störf sín.
Ólafur Helgi Kjartansson þakkar Þresti Brynjólfssyni fyrir störf sín.

Þröstur Brynjólfsson, yfirlögregluþjónn á Selfossi, lét af störfum í gær eftir 37 ára farsælt starf í lögreglu ríkisins. Hann hóf störf hjá lögreglunni á Húsavík árið 1970 og varð yfirlögregluþjónn þar árið 1982. Hann flutti sig svo til Selfoss árið 1996 og hefur starfað þar síðan.

Segja má að starfskraftar hans hafi verið nýttir fram á síðustu stund því hann var við umferðarstjórn á vettvangi alvarlegs umferðarslyss á Suðurlandsvegi undir kvöldmat í gærkvöldi. Hann gat þess sjálfur að umferðarstjórn á vettvangi umferðarslyss hefði einnig verið verkefni hans á sínum fyrsta degi í lögreglu á Húsavík.

Fram kemur í frétt lögreglunnar að Þresti hafi verið haldið kveðjuhóf í félagsheimili Karlakórs Selfoss í lok vinnudags í gær og færði Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi honum þakkir fyrir störf sín. Oddur Árnason aðstoðaryfirlögregluþjónn hefur verið skipaður yfirlögregluþjónn á Selfossi í stað Þrastar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×