Innlent

Ræða um framtíðaruppbyggingu Alcan hér á landi

Tveir af æðstu yfirmönnum Alcan eru að koma til landsins til að ræða við ráðamenn um framtíðaruppbyggingu fyrirtækisins hér á landi. Enn er til skoðunar að reisa nýtt álver fyrirtækisins í Þorlákshöfn.

Þó að Alcan sé byrjað að ræða við sveitarstjórnarmenn í sveitrarélaginu Ölfusi er ekki sjálfgefið að fyrirætkið hafi aðgang að orku til nýframkvæmda eftir að ljóst varð að Hafnfirðingar höfnuðu stækkuninni í íbúakosningu.

Um mánaðamótin rennur úr gildi viljayfirlýsing sem veitti Alcan forgang að orku Landsvirkjunnar en hún var sniðin að stækkuninni í Straumsvík. Ekki hefur enn svo vitað sé verið farið fram á framlengingu á þessum forgangi en margir eru um hituna og spurn eftir orku Landsvirkjunnar hefur aukist stig af stigi frá því viljayfirlýusingin var gefin.

Þeir yfirmenn Alcan sem eru væntanlegir til landsins eru Michel Jacques, yfirmaður Alcan Primary Metal Group, og Jean-Philippe Puig, forstjóri hjá Primary Metal Europe. Eftir því sem næst verður komist munu þeir hitta ráðherra hér á landi og einnig sveitarstjórnarmenn í Ölfusi á miðvikudag.

Ef horft verður til Þorlákshafnar með byggingu á álveri þarf að bæta hafnaraðstöðuna þar verulega og er það milljarðaframkvæmd. Alcan hefur einnig verið að meta þann kost að rífa elsta hluta álversins í Straumsvík og reisa þar nýja kerskála með nýjustu tækni en með því er hægt að stórauka framleiðslugetu álversins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×